Mánaðarskipt færslusafn fyrir: desember 2013

Póstlisti með fréttum frá Vinum Indlands

Undanfarið hefur verið unnið að endurbótum á heimsíðu Vina Indlands.  Ein af nýjungunum á heimasíðunni er póstlistakerfi sem gerir mögulegt að senda styrktarforeldrum Vina Indlands og öðrum sem áhuga hafa á starfi félagsins reglulega fréttir af starfi félagsins.  Við höfum kannski ekki verið nógu dugleg við að koma á framfæri því sem hefur verið að gerast hjá félaginu.  En vonandi getum við bætt úr því.  Þeir sem lent hafa á þessum póstlista fyrir misskilning biðjum við velvirðingar á ónæðinu og bendum þeim jafnframt á að auðvelt er að afþakka slíkan tölvupóst framvegis  með því að smella á þar til gerðan tengill í fréttabréfinu sem sendur er út með póstlistanum.

Þeim sem ekki eru nú þegar á listanum en áhuga hafa á því að fá reglulega fréttir af Vinum Indlands er bent á að skrá sig á póstlistinn en möguleiki til þess er að finna neðst á forsíðu heimasíðunnar.

Jólakort frá börnum og mögulegar pakkasendingar

Félagið var að fá sendingu sem hafði að geyma hluta af jólakortunum frá börnunum á Indlandi.  Þessi jólakort ættu að berast styrktarforeldrum viðkomandi barna á næstunni.  Vonandi skilar restin af jólakortunum sér til landsins fyrir jól.

Þess má geta að 8 vakir sjálfboðaliðar leggja í ferð til Indlands þann 13 janúar n.k. og þeir sem vilja nota ferðina til að koma einhverjum pakka eða umslagi til fósturbarna eða heimila geta haft sambandi við Sólveigu annað hvort í netfantið solveigjonas(hjá)gmail.com eða síma 693-6810

Uppbygging á aðstöðu til fjarnáms

Í nóvember sl. hófst tilraun með fjarnám á einni af þeim fræðslumiðstöðvum sem Vinir Indlands er að styrkja á Indlands.  Í fyrsta námskeiðinu eru 20 nemendur.  Um er að ræða verslunarnám sem leiðir til eins konar verslunarprófs sem gera á nemendurnar hæfa til þess að starfa í verslun og þjónustufyrirtækjum, sem sölumenn, markaðsfólk, afgreiðslustörf í verslunum.   Verslunarnámsefni þetta er hannað af Kanadísku fyrirtæki í samvinnu við heimamenn.

Þetta fjarnám mun einnig vera í boði fyrir lítt menntaða verkamenn sem hugsanlega er hægt að hjálpa með því að bjóða þeim upp á þennan möguleika til starfþjálfunar.  Á Indlandi eru verslunarstörf mun betur launuð heldur en ófaglærð landbúnaðarstörf.  Mikið er um fyrrverandi landbúnaðarverkamenn í fátækrahverfum stórborga á Indlandi.  Þetta fólk hefur leitað þangað eftir vinnu en möguleikar þeirra á atvinnumarkaði í borgum eru slæmir þar sem þeir hafa enga reynslu af verslunar- og þjónstustörfum.  Með svona fjarnámi má bæta úr því.

Til þess að fjarnám þetta sé mögulegt þarf fartölvur.   Ef þú átt eða veist um notaða fartölvur sem þú ert tilbúinn til þess að gefa í þetta verkefni þá væri það vel þegið.  EF einhverjar fartölvur verða gefnar í þetta verkefni þá er ráðgert að íslensku sjálfboðaliðarnir sem fara út til Indlands í janúar taki þær með sér og afhendi þær í fræðslumiðstövunum.  Til viðbótar fræðslumiðstöðvunum þá vantar einnig fartölvur á heimili barna því mikilvægt er að þau læri á tölvur.

Ef einhver vill gefa notaða fartölvu í þetta verkefni þá vinsamlegast sendið okkur tölvupóst á postur(hjá)vinirindlands.is

Ef þú átt ekki gamla fartölvu til þess að leggja í þetta verkefni en langar að leggja þessu verkefni lið þá er námskeiðsgjaldið fyrir hvern nemanda í þessu verslunarnámi c.a. 7.000 íslenskar krónur.  Þannig að það er líka mögulegt að gefa mjög fátækum einstaklingum færi á að komast í þetta fjarnám.

 

Verndaðu umhverfið og gerðu góðverk

Græn framtíð

Við viljum benda á að Græn framtíð, Síminn og Pósturinn munu frá 6. desember 2013 fram til jóla standa fyrir söfnunarátaki þar sem tekið verður við gömlum farsímum og þeim gefið framhaldslíf.  Símarnir verða gerðir upp eða notaðir í varahluti og allur ágóði mun renna til góðgerðarfélags að þínu vali.  Vonandi munu einhverjir muna eftir Vinum Indlands í þessu átaki.  Nánari upplýsingar um þetta söfnunarátak má finna með því að smella á þennan tengill.