Hugsjónin

Vinir Indlands er vettvangur til þess að gera góðan ásetning að veruleika.

Vinir Indlands leggja áherslu á að aðstoða þurfandi til sjálfsbjargar.  Starf félagsins er grundvallað á manngildishugsjónum, óháð trúarbrögðum og stjórnmálaskoðunum. Mikil áhersla er á samstarf við heimamenn og að verkefnin séu rekin af heimamönnum, á þeirra forsendum og að þeir komi líka með framlög í verkefnin. Slík framlög geta verið í formi peninga, vinnuframlags, vörum eða þjónustu. Þannig stefna Vinir Indlands að því að hver króna sem félagið fær í framlag frá einstaklingum og félögum á Íslandi skili sér sem tvær krónur á vettvangi verkefnis í Indlandi.

Allt starf í þágu Vina Indlands hefur verið unnið í sjálfboðaliðavinnu, allur ferðakostnaður þeirra sem fara til Indlands til þess að starfa fyrir félagið er greiddur af þeim sjálfum.  Þetta þýðir að öll framlög sem félagið fær skila sér beint til verkefna á Indlandi. (Á árinu 2012 var þetta hlutfall 98%, 2% sem upp á vantar er banka- og sendingarkostnaður).  Vinir Indlands gera sömu kröfu til samstarfsaðila sinna á Indlandi. En Vinir Indlands starfa með betur stæðum indverjum sem svíður að horfa uppá örbirgð samlanda sinna.