Í Ríkisútvarpinu núna yfir jólin eru áhugaverðir útvarpsþættir um Jón Indiafara. Þáttaröðin heitir: Guðspjallamaður að vestan. Í lýsingu RÚV á þáttaröðinni segir: "Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara er einstæð saga um sveitapilt sem laumar sér um borð í skútu vestur á Ísafirði og siglir með enskum á vit ævintýranna á því herrans ári 1615. Hann gerist fallbyssuskytta í danska hernum og siglir á skipum konungs alla leið austur til Indlands. Fjórir þættir þar sem farið er í fótspor Jóns Indíafara á ævintýralegum ferðum hans að endamörkum hins þekkta heims. Umsjón hefur Jón Ársæll Þórðarson en um framleiðslu sér Guðni Tómasson. Lesari auk umsjónarmanns er Ævar Kjartansson."
Þetta er mjög áhugaverð útvarpsþáttaröð sem vert er að mæla með fyrir félaga í Vinum Indlands m.a. fyrir þær sakir að Jón Indiafari dvaldi á svipuðum slóðum í Tamil Nadu og margir félagar í Vinum Indlands hafa komið til. Jón Indiafari dvaldi á Indlandi 1622-1624 þar sem nú heitir Tarangambadi þar sem Danir byggðu virkið Dansborg. Þess má geta að bærinn Tarnagambadi er rétt sunnan við bæinn Pondicherry sem margir félagar í Vinum Indlands hafa komið til.